Færsluflokkur: Bloggar

Enn syngur vornóttin..

 Vornótt í Reykjavík

Það er óvenjulegt að fá svona veðurblíðu í maímánuði á seinni árum  Ég verð sentimental og hugsa um ljóð Tómasar Guðmundssonar um vornóttina:

 ,Enn syngur vornóttin vögguljóð sín.

Veröldin ilmar, glitrar og skín.

Kvöldsett er löngu í kyrrum skóg.

Öldurnar sungu sig sjálfar í dá.

Síðustu ómarnir ströndinni frá

hurfu í rökkurró.

Mannstu það ást, mín, hve andvakan var

yndisleg forðum ? Hamingjan bar

ljóð okkar vorlangt á vængjum sér.

Brosmilt og þaggandi lágnættið leið.

Ljósið, sem dagsins á tindunum beið,

fann þig í fangi mér.

Vaki ég enn meðan vornóttin skín.

Veit mig þó bundinn annari sýn.

Stundir, sem hníga í haustsins slóð,

láta við eyrum mér andvöku hljótt.

Öðrum en þér flytur vorið í nótt

ilm sinn og ástarljóð.

 

 

 


Veikindafrí

Uppskurður

Það er best að setja hér inn á bloggið framhald sjúkrasögu minnar á þessu herrans ári 2009.  Ég hef sem sagt farið til taugaskurðlæknis, sem sýndi mér myndirnar af brjósklosinu mínu.  Það er merkilegt að sjá þetta í tölvunni og hægt að stækka og snúa myndunum á alla kanta.  Hann ráðlagði mér eindregið að láta fjarlægja þetta, þar sem það þrýstir á taugar sem liggja niður í fót.  Vildi helst taka mig í aðgerð strax í vikunni á eftir, en ég var ekki tilbúin einhvernvegin.  Að leggjast undir hnífinn er eitthvað svo mikil ákvörðun.  Svo hugsaði ég málið.  Ég hef tekið verkjalyf og svo lyf sem taugaskurðlæknirinn skaffaði og hef með því móti getað unnið svona næstum allan daginn.  En ekki allan. Þegar klukkan er langt gengin þrjú á daginn, er ég alveg búin og fer heim.  Það er engin framtíð í svona lífi og ég játaði mig sigraða og hringdi í lækninn á miðvikudaginn.  Hafði fengið mikla hvatningu frá ættingjum og vinum um að láta bara drífa í þessu.  Læknirinn var ekkert að tvínóna við þetta og ég var boðuð í innskrift í dag og uppskurð á mánudaginn, takk fyrir.   Ég mæti eldsnemma og fer heim daginn eftir.  Þarf síðan að vera heima í 4-6 vikur.  Hef bara hugsað mér að hafa tölvuna hjá mér í rúminu og get þá svarað pósti og svona.   Sick

Ég fór með litlu ömmudrengina mína á Kardemommubæinn þann 15 mars s.l. og það var algjört ævintýri að vera með þeim í leikhúsinu og sjá þessa frábæru sýningu.  Við vorum á 2. bekk og þeir skemmtu sér konunglega. Sá elsti hafði mestan áhuga á hljómsveitinni í gryfjunni, enda vel í návígi,  sá yngsti var hálf skelkaður við ljónið en miðdrengurinn bara elskar leikhús.  Augun ljóma og hann drekkur í sig allt sem fram fer á sviðinu.  Bara ógleymanleg leikhúsferð Smile

Kardemommubærinn

Kæru vinir og vandamenn - hafið það sem best og njótið páskanna. 


Brjósklos

Bakverkurinn

Þá er búið að finna út hvað er að bakinu mínu. Ég fór sem sagt til sérfræðingsins og hann sendi mig í segulómun og röntgen.  Honum fannst þessar myndir úr tölvusneiðmyndartækinu ekki ná yfir allt bakið.   Niðurstaðan úr þessari segulómun er, að ég er með stórt brjósklos milli 2 og 3 lendarliðar. Þessi elskulegi læknir sendi mér póst um niðurstöðuna í dag og hringdi svo í kvöld heim til mín.   Hann vill láta fjarlægja það og tæknin í dag er víst orðin svo mikil að taugaskurðlæknar gera gat á bakið og búmmm ! farið ! Frown    Sérfræðingurinn minn gerir ekki þessa aðgerð sjálfur en ætlar að senda beiðni til taugaskurðlæknis um að taka við mér.   Eftir að hafa verið frekar heilsuhraust alla tíð er skrýtið að vera að ganga á milli lækna í margar vikur.  Eitthvað svo óraunverulegt.  En verkirnir eru svo sannarlega raunverulegir og þreytandi.  

Ég nenni ekki að tala meira um þetta, en fannst ágætt að setja þetta hér niður á bloggið mér til minnis um dagsetningar upp á seinni tíma.

Set hér inn mynd af ömmudrengjunum mínum. Hún gleður mig í hvert sinn sem ég skoða hana.Smile

Stoltir strákar

 

 


Í byrjun Góu

Fjallkonan 1866

Síðasta bloggfærsla var skrifuð á konudaginn eða fyrsta dag góu. Góa hefst í átjándu viku vetrar og voru veðrabrigði oft kennd við þessi tímamót.  Það er merkilegt að Sighvatur Árnason alþingismaður, góðvinur afa í Dalseli, gerði veðurathuganir á árununum 1840 - 1900 og birti í Skírni 1907.  Þar segir hann um þennan veðurspádóm:

Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem Góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.

Mig minnir að það hafi verið kalt á öskudaginn. Allavega var ömmudrengnum mínum það kalt að hann var ekkert lengi í þessum sníkjum, sem eru víst orðin hefð á Íslandi að bandarískum hrekkjavökusið.  Það er sagt að öskudagur eigi sér átján bræður og víst er að nú er kalt í Hlíðunum allavega.  

Vikan hefur verið alveg þokkaleg með hefðbundnum matseðli föstuinngangs fram á fimmtudag, en þá var pasta og pizza í kvöld.   Hvernig hægt er að stökkva svona úr íslenskum þjóðarréttum yfir í þá ítölsku  er mér hulin ráðgáta.  En svona var þetta samt.  Bakið er enn að drepa mig og ég verð voða fegin að fara í seinni myndatökuna á miðvikudaginn og fá þá niðurstöðu um meðferð.  Ég er hundþreytt á þessum stöðugu verkjum, en herði upp hugann og hugsa um fólk sem á miklu meira bágt en ég.  Dóttir mín gaf mér bók í afmælisgjöf sem ég er að byrja að lesa.  Hún heitir ,, A purpose driven life,, eftir Rick Warren og hefur verið þýdd á íslensku undir heitinu  Tilgangsríkt líf.  Ég hef nú mest lesið krimma og ævisögur undanfarið þannig að þetta er ágætis tilbreyting. 

Í tilefni konudagsins á sunnudaginn var og í byrjun Góu, er við hæfi að setja inn Minni kvenna eftir þjóðskáldið Matthías Jockumson:

Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullin tár;
þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár!

Ætla að hafa það rólegt um helgina og hugsa inná við.Smile


Sunnudagsblogg í föstuinngangi

 

Afmælisblóm 

Í dag er konudagur og sunnudagur fyrir föstuinngang.  Ég fékk ekki blóm í dag en auðvitað á ég enn blóminn sem ég fékk á föstudagsmorguninn.  Yndislegur blómvöndur með rósum og kóngaliljum og hann mun gleðja mig fram í næstu viku sem kennd er við föstuinngang með bolludegi, sprengidegi og öskudegi.   Það má rekja þessa föstugleði til kaþólsku kirkjunnar og tengist kirkjulegri iðrun.  Menn gengu fram fyrir prest sem dreifði ösku yfir kirkjugesti og var tilgangurinn að afmá syndir viðkomandi. Þeir sem voru hræddir um að fá ekki fyrirgefningu synda sinna, flengdu sig með vendi.   Langafasta var þá tími föstu og hugleiðinga um bætt líferni.  Ekki mátti borða kjöt í föstumánuðinum og haldnar voru kjötkveðjuhátíðir um allan hinn kaþólska heim.  Svo er enn í dag.

Ég mun að sjálfsögðu kaupa bollur í dag, því ég er ekki mjög flink í vatnsdeigsbollu bakstri.  Svo verða bollur í kvöldmatinn annað kvöld.  Ég er ekki búin að ákveða hvort ég verð með fiskibollur eða kjötbollur.  Þá þarf að útvega sér gott saltkjöt fyrir þriðjudaginn og leggja baunir í bleyti.  Kannski þarf ekkert að leggja þessar baunir í bleyti lengur, ég bara geri það af því að mamma gerði það alltaf.   Ég set hvítlauk og beikon í baunasúpuna, nokkuð sem mamma hefði aldrei gert en mér finnst gott.  Eftir þessa veisludaga á maður náttúrlega að borða eingöngu fisk fram að páskum , en ég klikka alltaf á því. 

Farin út að kaupa bollur og saltkjöt Smile

Karnival í Rio

 


Verkjavæl ofl

Mikael Jafet bronsverlaunahafi í Judo

Ég hef ekkert bloggað um daglegt líf undanfarið.  Ástæðan er sú að ég get svo lítið setið við tölvuna vegna baksins og samkvæmislífið er í aljöru fríi.  Búin að fara í tölvusneiðmyndatöku og fer til bæklunarlæknis á fimmtudaginnSick Virðist sem þetta sé eitthvað liðbolaskrið en það kemur betur í ljós þegar ég hitti sérfræðinginn. Það er ótrúlegt að upplifa það að geta bara ekki gert hvað sem er. Og alltaf þessi brennandi sársauki, svona eins og vondir verkir í baki þegar maður fæðir barn Blush En nóg um það,  margir eru miklu verr haldnir en ég.  Lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir allt.  Ömmudrengurinn minn tíu ára, vinnur til verðlauna á hverju júdómótinu á fætur öðru.  Hann byrjaði í haust og hefur náð ótrúlegum árangri finnst stoltri ömmunni.  Menningarviðburðir hafa farið framhjá mér,  en stefnt er að því að fara með alla drengina á Kardimommubæinn 15 mars.  Móðir þeirra var glaður þátttakandi í þeirri frábæru sýningu fyrir 25 árum og ég bíð spennt eftir upplifun drengjanna á þessu frábæra leikriti Egners.

Ég hef hins vegar legið á hitapoka og horft á Inspector Morse diskasafnið mitt til skiptis við Húsbændur og Hjú.  Þá á ég von á að taka næst fyrir Löður þættina sem ég hlakka til endurnýja kynnin við.  Ég bara get ekki horft á þessar niðurdrepandi fréttir af stjórnmálunum og efnahagsumræðu  dag eftir dag.  Flý frekar veruleikan um stund með því að hverfa aftur í tímann og horfi á þessa gömlu gullmola.  Ég væri samt alveg til í að fara til Tenerife í viku - ef einhver vildi bjóða mér Smile  Ætli séu ekki til svona ferðir til baklækninga ?Wink   Ég fer í vinnuna á hverjum degi en oftast er ég alveg búin á því um hádegi, hef þá farið heim og skellt í mig verkjatöflum og sofnað.

Nú er ég nýkomin heim, tók töflu og fer í rúmið.....ZZZZZ

 


Kuldaboli

Arininn minn

Þessa daganna er ískalt á landinu bláa.  Það er kalt í vinnunni og heima finn ég fyrir gólfkulda í gegnum parketið, og hugsa með söknuði til æskudaganna þegar allt var teppalagt í hólf og gólf. Seinna þótti það vera heilsuspillandi að vera með teppi á gólfum, kannski bara áróður frá framleiðundum annarra gólfefna. Mér fannst það samt alltaf svo notalegt.   Ég veit svo sem ekki hvað ég er að kvarta yfir smá gólfkulda, þegar ofnarnir eru funheitir og hægt  hafa opna glugga til að fá ferskt loft í 10 stiga frosti.  Svo get ég alltaf kveikt upp í arninum og geri það hiklaust núna.

Ég get aldrei hætt að dásama hitaveituna.  Okkur íslendingum hættir til að gleyma því hvað húsin okkar eru hlý og vel byggð. Tökum því bara sem sjálfsögðum hlut.  Þegar ég bjó í Osló á sínum tíma, átti ég verst með að venjast kuldanum í húsunum að vetri til.  Þar var rafmagnskynding og ofnarnir hituðu bara fimmtíu sentímetra frá sér.  Ég fór í stilllongs þegar ég kom heim á kvöldin og skreið uppí rúm um níuleitið með rautt nef.  Bretland er hálfu verra.  Pubbarnir þar (Public House) hafa þjónað þeim tilgangi í árhundruð að vera samkomustaður fyrir almenning sem gat ekki verið  heima hjá sér fyrir kulda.  Nú berast fréttir af því að gamalt fólk í Bretalandi deyi úr kulda á heimilum sínum.  Það finnst mér hrikalegt.

Við hugsum allt of sjaldan um það  hvað við erum lánsöm að eiga þessa óþrjótaandi orku sem heita vatnið er. Þvílík framsýni sem það var á sínum tíma að koma því í framkvæmd að nýta  hana til húshitunar um allt land.  Við göngum nú í gegnum  miklar efnahags þrengingar og erum áhyggjufull um framtíðina.  En gefum okkur líka tíma til að þakka fyrir það sem við höfum.  Hugsum um þessa miklu orku sem við eigum og aðrar þjóðir öfunda okkur af.  Vonandi berum við gæfu til að umgangast auðlindir okkar skynsamlega og nýta tækifærin sem bjóðast til að fá inn þær tekjur sem þjóðarbúið þarf svo sárlega á að halda nú til að rétta okkur við.

nesjar


Jólasnjór í janúar

Jól í janúar

Í gær kom jólasnjórinn.  Stórar snjóflyksur svifu rólega til jarðar og það birti yfir öllu. Þegar ég kom heim kveikti ég á kertum og sat bara og horfði dáleidd á trén sem svignuðu undan mjúkum snjónum.  Eitthvað nýtt og ferskt lá í loftinu og ró og friður færðist yfir mig.

Ég ákvað að hlusta ekkert á útvarpið. heldur fór í ættfræði grúsk.  Nú er langamma mín í föðurætt Þórunn Björnsdóttir í Hækingsdal í Kjós á borðinu hjá mér.  Þegar því er lokið ætla ég að taka fyrir móðurafa minn Auðun í Dalseli.   Ættfræði er  endalaus uppspretta fróðleiks og til umhugsunar um líf og störf forfeðra okkar.   Ég gat að vísu ekki setið lengi við, því bakið er enn að hrjá mig, þrátt fyrir stífa meðhöndlun Kolbrúnar sjúkraþjálfara.  Hitapokinn er alltaf við höndina og á mánudag mun ég  biðja um myndatöku. 

Nú á ég 26 vini á Fésbókinni og þar af 24 sem eru ættingjar mínir.  Í ættarhóp mínum í móðurætt eru 27 meðlimir og í föðurhópnum 13 meðlimir.  Eins og ég hef áður sagt þurfa ættingjar sem vilja vera í grúppunni ekki endilega að vera í vinahóp mínum.  En þeir þurfa að vera skráðir á Facebook.  Ég vil gjarnan fá fleiri ættingja  af minni kynslóð inn í hópana og hvet þau hér með til að skrá sig á Fésið. Krakkar, koma svo - skrá foreldrana inn !

Annars bara góð í þessu fallega veðri.

 

 

 

 


Laugardagsblogg

Ákvað að blogga smá áður en ég fer á vinnufund sem stendur í allan dag.  Minn tími á netinu er nú eiginlega bara á Facebook.  Þvílíkt sem þetta er snjallt. Viðbrögð ættingja við hópunum sem ég stofnaði þar eru frábær.  Snilldin við þetta er líka að unga fólkið sem kannski vill ekkert vera að hafa svona kellingar eins og mig í vinahópnum sínum, er að þau geta skráð sig í ættarhópinn án þess að ég þurfi að vera í vinahóp þeirra. Blush  Þursabitið er ekkert að lagast og ég á að fara í sjúkraþjálfun á miðvikudaginn, þetta er frekar óþolandi ástand á skrokknum á mér.  Vonandi ekki merki um mikla hrörnun, og sjálfsagt verður hægt að laga þetta.  Sjúkraþjálfarar eru jú sérfræðingar í klemmdum vöðvum.  Sick  Í vikunni skipti ég á nokkrum Vildarpunktum Flugleiða á points.com og fékk gjafakort á Amazaon fyrir.  Var snör í snúningum og pantaði 6 diska af Inspector Morse og allt Tomma og Jenna safnið  fyrir ömmudrengina til að horfa á þegar þeir eru í heimsókn.  Sá fram á að ég væri ekkert að fara til útlanda á næstunni, svo eins gott að nota punktana fyrst það er hægt svona. Annars góð.

Tommi og Jenni

 

 

 

 

 

Fésbók og frændgarður

facebook

Ég skráði mig á Facebook fyrir nokkrum mánuðum, en kunni ekkert á það og gleymdi því svo.  Dóttir mín er hinsvegar forfallinn notandi samskiptavefsins og það neyddi mig eiginlega til að fara að grufla í þessu.  Það er skemmst frá því að segja að ég er himinlifandi.  Ég hef fundið fullt af ungum frænkum mínum í gegnum dóttur mína og sé fram á að frændfólkið haldi tengslum í gegnum þetta unga flotta fólk.   Þá get ég fært allt sem ég skrifa hér, yfir í nótur á fésbók, frændum og vinum  til aflestrar.  Ætla eiginlega að skrifa ættfræði í gríð og erg og vona að svo að einhver fái áhuga á forfeðrunum. Grin  En í alvöru, ef einhver af frændfólki mínu les þetta og er á Facebook, þá endilega hafið samband við mig þar.  Ég ætla að stofna þar tvær grúppur fyrir sitthvorn ættlegg.  Þið finnið mig undir leitunarnafninu: Gulla.

Að öðru.  Ég er enn undirlögð af þessu þursabiti sem ég fékk þann 2. janúar og finnst bara alveg nóg um hvað þetta ætlar að ganga seint til baka.  Sef ekki hálfa nóttina og göngulagið eins og hjá erfiðismanni á áttræðisaldri Sick  

Annars bara ljúf miðað við skollans bakið.  Smile

Bakverkurinn

 

 

 

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband