Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku í Þingvallasveit

Set hér inn minningargrein sem Ríkarður Jónsson myndhöggvari skrifaði um frænda minn Hjört Björnsson frá Skálabrekku í Þingvallasveit og birtis í Tímanum 30 apríl 1942.  Hjörtur var bróðursonur Friðriks Hanssonar langafa frá Hækingsdal í Kjós, og lést aðeins 46 ára gamall úr berklum.  Ég man eftir myndum á æskuheimili mínu af gömlu fólki í fallegum útskornum myndarömmum sem voru verk Hjartar.

Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku var jarðsunginn í Fossvogi í gær.  Hann var fæddur á Skálabrekku í Þingvallasveit 21. mars 1896, sonur hjónanna Björns Ólafssonar og Jakobínu Þorsteinsdóttur, er bjuggu þar lengi.Hjörtur ólst upp á Skálabrekku til fullorðinsára, en réðist síðan til myndskurðarnáms hjá undirrituðum haustið     og lauk sveinsprófi eftir fjögra ára nám.  Vann hann fyrir sér á sumrum en stundaði námið á vetrum, var auk þess einn vetur í Kaupmannahöfn og lærði gibsaraiðn og að námi loknu lagði hann hvort tveggja fyrir sig jöfnum höndum, unz heilsa hans þraut.Hjörtur var óvenjulega miklum hæfileikum gæddur.  Hann var hagur vel, og listhneigður, en það var þó ekki hans sterkasta gáfa.  Aðalgáfa hans voru á sviði sögu og náttúruvísinda og að því leiti fannst mér alltaf hann vera á rangri hillu, sem kallað er.  Hann var þegar á unga aldri alveg undra fróður maður, og var fræðileikur hans yfirgripsmikill og margþættur, svo að ég minnist ekki að hafa kynnst  jafn fjölfróðum unglingi.  Hann hlýtur að hafa lesið kynstrin öll í æsku og minnið var óvenjulega skarpt.  Hann hafði einnig frábæra athyglisgáfu á öllu, sem hann heyrði og sá.  Þessum mikla fróðleik fylgdi og skemmtileg og glaðvær frásagnargáfa, blandin drjúgum skerf af kímni.  Hefi ég margra glaðra stunda að minnast frá námsárum Hjartar.  Hagmæltur var hann vel og ljóðkær, hafði næman smekk fyrir móðurmáli sínu og reyndist ritfær með ágætum, svo sem bók hans ,, Sumar á fjöllum,, ber órækan vott um.  Þar er mikinn fróðleik og ósvikna hrifningu fyrir íslenskri sveita og fjallasælu að finna, enda hafði hann sára þrá til fjallanna er mold fór að gróa, enda ferðaðist hann um fjalllendi hér sunnan og suðvestanlands eftir því sem hann frekast gat.  Það hygg ég að hafi verið hans aðalyndi og sæla þessa lífs.   Hjörtur var einnig gæddur skemmtilegum leikarahæfileikum og átti afar létt með að hafa hamskipti.Fyrir nærri heilum tug ára yfirbugaðist Hjörtur af berklaveiki, og varð hann í öll þau ár að heyja látlaust stríð við þá veiki, er loks varð honum að aldurtila hinn 25 apríl.  Öll þau ár sem Hjörtur dvaldist á heilsuhælum, fékk hann að hafa smíðakompu, þar sem hann skar út ýmsa muni, þegar heilsan leyfði og mun það hafa létt honum að verulegum mun hið æðrulausa stríð.Það var alltaf gleði og fróðleikur að návist Hjartar Björnssonar, því er söknuður að fráfalli þessa merka manns.Ríkarður Jónsson.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband