Laugardagur, 10. janúar 2009
Þórunn Hannesdóttir Scheving
Ævisaga Jóns Steingrímssonar er merkileg heimild samtímamanns um Skaftárelda og móðuharðindin. Ég glugga stundum í þá bók og líka fyrir það, að eiginkona hans, Þórunn Hannesdóttir Scheving er formóðir mín. Jón lýsir hreinskilningslega í bókinni kynnum þeirra og ástum, en þau kynntust þegar Jón gerðist djákni á Reynistað. Þá var Þórunn gift klausturhaldaranum Jóni Vigfússyni, sem samkvæmt Jóni Steingrímssyni, barði konu sína iðulega í drykkjuköstum sínum, en var ljúfur sem lamb þess á milli. Minnir það óneitanlega á örlög annarrar formóður minnar í föðurætt, Þórdísi Jónsdóttur í Bræðratungu. En hún flúði ósjaldan undan junkernum Magnúsi í Bræðratungu í Skálholt til systur sinnar, er drykkjutúrar ans stóðu yfir.
Þórunn Hannesdóttir Scheving var fædd 28.08. 1718 og var stórættuð. Hún var dóttir Hannesar Lauritsonar Scheving, sýslumanns á Munkaþverá og konu hans Jórunnar Steinsdóttur, biskups á Hólum. Þótti mörgum hún hafa tekið niður fyrir sig er hún giftist Jóni Steingrímssyni.Jón Vigfússon lést er Þórunn bar yngsta barn þeirra undir belti og tók Jón Steingrímsson að sér að hugga hana, að ráði þjónustustúlku sinnar eins og segir í ævisögu hans. Þórunn átti 3 börn með Jóni Vigfússyni er upp komust. Yngsta barnið Karítas Jónsdóttir Scheving, sem fæddist eftir dauða föður síns, flutti með móður sinni og Jóni Steingrímssyni, suður að Prestbakka eftir giftingu þeirra. Jón Steingrímsson og Þórunn Hannesdóttir Scheving eignuðust 5 dætur saman og er mikill ættbogi frá þeim kominn.
Af Karítas Jónsdóttur Scheving er það að segja að hún giftist Þorsteini Eyjólfssyni á Vatnskarðshólum. En Jón Steingrímsson segir í ævisögu sinni að hún hafi látið ,, fallerast,, með honum og það hafi valdið Þórunni konu sinni þungum raunum. En raunir Þórunnar vegna hinnar ættgöfugu Karítasar voru auðvitað þær að henni var ætlað annað mannsefni en venjulegan bóndason. Karítas Scheving var í föðurætt, komin af Jóni Vigfússyni Hólabiskup f. 1643 og í móðurætt af Jórunni Steinsdóttur, biskups. En hjónaband Karítasar og Þorsteins var farsælt, og áttu þau 9 börn, þar á meðal Karítas Þorsteinsdóttur f. 1788 er giftist Jakobi Þorsteinssyni á Brekkum.Sonur þeirra var Þorstein Jakobsson f.1812 bóndi að Fjósum í Mýrdal er kvæntist Helgu Þórðardóttur Thorlacius. Þeirra dóttir var Guðrún Þorsteinsdóttir f.1849 langamma mín.Þess má geta að Jón Steingrímsson var fæddur 10.09.1728 ef einhver vil rekja sig saman við hann.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt 15.1.2009 kl. 12:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.