Laugardagur, 10. janúar 2009
Að kveðja jólin
Oftast hef ég tekið niður jólaskrautið strax daginn eftir þrettándann, en aldrei eins seint og nú. Það er tíundi janúar í dag og ég er að taka saman alla fallegu jólahlutina mína og setja niður í kassa. Sumir geta ekki beðið með að taka niður þetta ,, drasl.. en ekki ég. Það verður allt svo tómt og hversdagslegt. Nú finnst mér jafnvel erfiðara að pakka jólunum niður. Þegar aðventan gekk í garð í síðasta mánuði voru margir þegar búnir að setja upp ljós og skeyta fyrr en venjulega. Ég líka. Það var bara þannig ástand í þjóðfélaginu að aðventan var kærkomin tími til að fá haldreipi í fasmótaða siði og venjur. Að allt væri eins og var áður. En nú er komið nýtt ár, nýr tími, ný gildi. Ég vona að nýtt ár beri í skauti sínu gæfu fyrir okkur öll. Að okkur takist að byggja upp sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Að ráðamenn setji í forgang að sameina okkur en ekki sundra. Að skjaldborg verði slegið um heimilin í landinu, því börnin okkar og barnabörn eiga það skilið að finna að þau eigi öruggt skjól á viðkvæmasta aldurskeiði lífsins.
Ég kveð jólin með söknuði, en veit jafnvel að þau koma aftur í desember, með sinn frið, gleði og ljós. Ég hlakka til.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.