Færsluflokkur: Bloggar
11.1.2009 | 14:24
St. Jósefsspítali
Ég skil ekki hvernig borgarafundurinn í Hafnarfirði um St. Jósefsspítala gat farið fram hjá mér í gær. Ég hefði svo sannarlega mætt á þennan fund í stað þess að pakka niður jólunum.
Eðlilegt er að leita leiða til að hagræða í heilbrigðismálum hjá ríkinu. En St. Jósefsspítali er bara ekki alfarið í eigu ríkisins. Hafnarfjarðarbær er 15 % eignaraðili og það er nú eiginlega grundvallar krafa að upplýsa sameigendur sína um þau áform að leggja eigi spítalann niður í núverandi mynd. Ekki taka bara einhliða ákvörðun. Sjálfur Landlæknir vissi ekki um þessa ákvörðun. Síðast en ekki síst er St. Jósefsspítali vel rekin stofnun.
Árið 1921 var enginn spítali í Hafnarfirði, en það ár keypti kaþólska kirkjan jörðina Jófríðarstaði og ákvað að reisa þar spítala og fá Jósefssystur til að reka hann. Guðrjóni Samúelssyni var falið að gera teikningar og hinn 5. september 1926 var St. Jósefsspítali vígður. Frá fyrstu tíð ráku systurnar þessa sjúkrastofnun í anda kærleika og mannúðarstefnu. Sá andi hefur fylgt St. Jósefssptítala allar götur síðan og breyttist ekkert við að ríkið og Hafnarfjarðarbær tóku yfir reksturinn árið 1987. Allir þeir sem hafa fengið að kynnast starfsemi St. Jósefsspítal í Hafnarfirði hafa fundið þennan manneskjulega anda sem svífur þar yfir vötnum.
Ég vona að heilbriðgisráðherra beri gæfu til að endurskoða ákvörðun sína og leyfi St. Jósefsspítala að starfa áfram sem spítala eins og til hans var stofnað fyrir rúmum 80 árum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.1.2009 | 15:42
Að kveðja jólin
Oftast hef ég tekið niður jólaskrautið strax daginn eftir þrettándann, en aldrei eins seint og nú. Það er tíundi janúar í dag og ég er að taka saman alla fallegu jólahlutina mína og setja niður í kassa. Sumir geta ekki beðið með að taka niður þetta ,, drasl.. en ekki ég. Það verður allt svo tómt og hversdagslegt. Nú finnst mér jafnvel erfiðara að pakka jólunum niður. Þegar aðventan gekk í garð í síðasta mánuði voru margir þegar búnir að setja upp ljós og skeyta fyrr en venjulega. Ég líka. Það var bara þannig ástand í þjóðfélaginu að aðventan var kærkomin tími til að fá haldreipi í fasmótaða siði og venjur. Að allt væri eins og var áður. En nú er komið nýtt ár, nýr tími, ný gildi. Ég vona að nýtt ár beri í skauti sínu gæfu fyrir okkur öll. Að okkur takist að byggja upp sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Að ráðamenn setji í forgang að sameina okkur en ekki sundra. Að skjaldborg verði slegið um heimilin í landinu, því börnin okkar og barnabörn eiga það skilið að finna að þau eigi öruggt skjól á viðkvæmasta aldurskeiði lífsins.
Ég kveð jólin með söknuði, en veit jafnvel að þau koma aftur í desember, með sinn frið, gleði og ljós. Ég hlakka til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2009 | 22:01
Aftur til bloggheima
Í dag ákvað ég að fara að blogga aftur. Eftir rúma tvo mánuði frá því að ég lokaði blogginu mínu, finn ég að ég sakna þessarar dægradvalar, sem gaf mér margar ánægjustundir á síðasta ári. Þegar ég lokaði blogginu hurfu allar færslurnar mínar og nú byrja ég bara uppá nýtt á nýju ári. Þó ætla ég að setja inn aftur færslurnar um ættfræði og sitthvað sem ég vildi ekki henda.
Af mér er helst að frétta að ég hef haft mikið að gera í vinnunni og hún tekið mest af tíma mínum síðustu tvo mánuði ársins. Í miðjum jólaundirbúningi eða þann 17 des tókst mér að brenna nærri af mér hendina á heitri feit og ekki í fyrsta sinn. Það þýddi að ég var frekar fötluð í öllu sem þurfti að gera. Var samt búin að pakka inn öllum jólagjöfum og skrifa á nokkur kort. Elskulegur eiginmaður minn stóð við hlið mér eins og klettur og kláraði kortin og eldhúsið varð hans heimavöllur á einum degi Jólin liðu í friði og ró og áramótin einnig. Þegar tveir dagar voru liðnir af nýja árinu tókst mér að festa mig í bakinu einhvernvegin þannig að ég var óvinnufær. Læknar halda að þetta sé klemmd taug, einhverskonar ,, hekseskud,, sem leiðir frá mjóbaki niður í fót. Ekki akkúrat sem ég þurfti á að halda eftir brunameðferðina á hendinni. Ég er þó komin til vinnu og sting við fæti og er að detoxa mig niður af Parkótin Forte átinu. Heilsugæsla Hlíðasvæðis er með stóran fæl um mig í tölvunni , bara frá 17 des til 2 jan.
Annars bara góð á föstudagskvöldi á fyrsta bloggdegi þessa árs.
Bloggar | Breytt 10.1.2009 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)