24.1.2009 | 11:36
Þórdís í Bræðratungu
Ég minntist á Þórdísi Jónsdóttur, formóður mína í umfjöllun minni um Þórunni Hannesdóttur Scheving og Séra Jón Steingrímsson. Þórdís er formóðir fjölda íslendinga, enda átti hún 5 börn er upp komust. Hún var gerð ódauðleg, sem Snæfríður Íslandssól, af Halldóri Laxness í Íslandsklukkunni , er kom út árið 1943. Nú geta allir flett upp í Íslendingabók og skoðað þar, í hvaða lið þeir eru skyldir Þórdísi.
Þórdís var fædd 1671 og voru foreldrar hennar Jón Vigfússon, biskup á Hólum f. 1643 og kona hans Guðríður Þórðardóttir f. 1645. Guðríður móðir hennar var dóttir Þórðar í Hítardal er upp var á dögum Brynjólfs biskups í Skálholti. Þórdís var talin líkt og Ragnheiður, biskupsdóttir á sínum tíma, meðal göfugasta og jafnframt dýrasta kvonfangs landsins. Með því er átt við að, það voru aðeins stórættaðir menn eða valdamiklir, sem gátu gert sér vonir um að að faðir hennar biskupinn, tæki í mál að ræða um ráðahag. Dætur voru nefnilega skiptimynt í valdastétt landsins á þessum tíma og réttar mægðir voru því trygging fyrir áframhaldandi áhrifum og völdum.
Þórdís giftist Magnúsi Sigurðssyni, lögréttumanni í Bræðratungu f.1651. Hann var kominn af sýslumönnum í beinan karllegg, en langafi hans var hinn mikli höfðingi, Ari Magnússon í Ögri. Magnús var ekkjumaður og tuttugu árum eldri en Þórdís. Bræðratungu hafði hafði hann fengið með fyrri konu sinni Jarþrúði Hákonardóttur, dóttur Hákonar Gíslasonar og Helgu í Bræðratungu, en Helga var mikill örlagavaldur í lífi Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, biskups. Hjónaband Þórdísar varð ekki farsælt eins og lesa má um í bók Árna Magnússonar, handritasafnara og fór svo að hún skildi við Magnús að lögum. Hún bjó fyrst í skjóli systur sinnar Sigríðar, sem gift var Jóni biskupi Vídalín í Skálholti og lést 1741.
Langamma mín í föðurætt Elín Árnadóttir f. 1856, sagði föður mínum frá hjónabandi Þórdísar og Magnúsar og dáðist alltaf að henni fyrir að skilja við hann. Elín langamma, kunni að rekja ætt sína til Þórdísar, en langamma hennar var sonardóttir Þórdísar. Þess má geta að Elín langamma mín lést árið 1941 eða tveimur árum áður en Íslandsklukkan kom út. Faðir minn lifði ekki að sjá Íslendingabók, en ég hef sannreynt þar, ættrakningu hans til Þórdísar í Bræðratungu.
Fyrir ættingja mína í föðurætt er ættrakningin svona:
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.