17.2.2009 | 16:30
Verkjavæl ofl
Ég hef ekkert bloggað um daglegt líf undanfarið. Ástæðan er sú að ég get svo lítið setið við tölvuna vegna baksins og samkvæmislífið er í aljöru fríi. Búin að fara í tölvusneiðmyndatöku og fer til bæklunarlæknis á fimmtudaginn Virðist sem þetta sé eitthvað liðbolaskrið en það kemur betur í ljós þegar ég hitti sérfræðinginn. Það er ótrúlegt að upplifa það að geta bara ekki gert hvað sem er. Og alltaf þessi brennandi sársauki, svona eins og vondir verkir í baki þegar maður fæðir barn En nóg um það, margir eru miklu verr haldnir en ég. Lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir allt. Ömmudrengurinn minn tíu ára, vinnur til verðlauna á hverju júdómótinu á fætur öðru. Hann byrjaði í haust og hefur náð ótrúlegum árangri finnst stoltri ömmunni. Menningarviðburðir hafa farið framhjá mér, en stefnt er að því að fara með alla drengina á Kardimommubæinn 15 mars. Móðir þeirra var glaður þátttakandi í þeirri frábæru sýningu fyrir 25 árum og ég bíð spennt eftir upplifun drengjanna á þessu frábæra leikriti Egners.
Ég hef hins vegar legið á hitapoka og horft á Inspector Morse diskasafnið mitt til skiptis við Húsbændur og Hjú. Þá á ég von á að taka næst fyrir Löður þættina sem ég hlakka til endurnýja kynnin við. Ég bara get ekki horft á þessar niðurdrepandi fréttir af stjórnmálunum og efnahagsumræðu dag eftir dag. Flý frekar veruleikan um stund með því að hverfa aftur í tímann og horfi á þessa gömlu gullmola. Ég væri samt alveg til í að fara til Tenerife í viku - ef einhver vildi bjóða mér Ætli séu ekki til svona ferðir til baklækninga ? Ég fer í vinnuna á hverjum degi en oftast er ég alveg búin á því um hádegi, hef þá farið heim og skellt í mig verkjatöflum og sofnað.
Nú er ég nýkomin heim, tók töflu og fer í rúmið.....ZZZZZ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.