27.2.2009 | 21:58
Í byrjun Góu
Síðasta bloggfærsla var skrifuð á konudaginn eða fyrsta dag góu. Góa hefst í átjándu viku vetrar og voru veðrabrigði oft kennd við þessi tímamót. Það er merkilegt að Sighvatur Árnason alþingismaður, góðvinur afa í Dalseli, gerði veðurathuganir á árununum 1840 - 1900 og birti í Skírni 1907. Þar segir hann um þennan veðurspádóm:
Þau árin, 6 að tölu, á þessu árabili, sem Góan var einmuna góð, stundum greri jörð, þá rættist þetta þannig, að tíðarfarið breyttist alltaf til hins verra á næstu mánuðum (Einmánuði og Hörpu) en þó einkum 3 árin í alvarleg harðindi.
Mig minnir að það hafi verið kalt á öskudaginn. Allavega var ömmudrengnum mínum það kalt að hann var ekkert lengi í þessum sníkjum, sem eru víst orðin hefð á Íslandi að bandarískum hrekkjavökusið. Það er sagt að öskudagur eigi sér átján bræður og víst er að nú er kalt í Hlíðunum allavega.
Vikan hefur verið alveg þokkaleg með hefðbundnum matseðli föstuinngangs fram á fimmtudag, en þá var pasta og pizza í kvöld. Hvernig hægt er að stökkva svona úr íslenskum þjóðarréttum yfir í þá ítölsku er mér hulin ráðgáta. En svona var þetta samt. Bakið er enn að drepa mig og ég verð voða fegin að fara í seinni myndatökuna á miðvikudaginn og fá þá niðurstöðu um meðferð. Ég er hundþreytt á þessum stöðugu verkjum, en herði upp hugann og hugsa um fólk sem á miklu meira bágt en ég. Dóttir mín gaf mér bók í afmælisgjöf sem ég er að byrja að lesa. Hún heitir ,, A purpose driven life,, eftir Rick Warren og hefur verið þýdd á íslensku undir heitinu Tilgangsríkt líf. Ég hef nú mest lesið krimma og ævisögur undanfarið þannig að þetta er ágætis tilbreyting.
Í tilefni konudagsins á sunnudaginn var og í byrjun Góu, er við hæfi að setja inn Minni kvenna eftir þjóðskáldið Matthías Jockumson:
Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís!
Blessað sé þitt blíða
bros og gullin tár;
þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár!
Ætla að hafa það rólegt um helgina og hugsa inná við.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.