Haraldur Norðdahl - minning 4. apríl 2007

Þann 4. apríl 2007, hefði skólabróðir minn úr Garðabænum, Haraldur Norðdahl orðið 56 ára, ef hann hefði  lifað.  Hann lést af slysförum tæplega 16 ára gamall.  Ég hugsa alltaf til hans á þessum degi þó svo langt sé síðan hann fór. Halli var fæddur 4. apríl 1952 og lést 9. mars 1968 og var elsta barn foreldra sinna, þeirra Þórdísar Ólafsdóttur og Guðmundar Norðdahl.Þegar hann kom í skólann fylgdi honum ferskur blær, líka einhver spenna .  Hann var mikill húmoristi og hafði einstaka útgeislun. Stelpur voru skotnar í honum.  En það var tónlistin sem átti hug hans allan.  Á þessum tímum bítla  og stones voru stofnaðar hljómsveitir í bílskúrum út um allt land. Garðahreppurinn eins og Garðabær hét þá, var engin undantekning og Halli stofnaði hljómsveit.  Hún hét Táningar, við vorum jú bara táningar . Tempó var táningahljómsveit.   Er þetta orð yfirleitt notað í dag ? Ég heyri bara orðið ,,unglingar,,  Myndi virka að skíra hljómsveit Unglingar í dag ? held ekki.  En hljómsveitin Táningar var flott árið 1967 og hún var okkar.  Halli spilaði á Höfner fiðlubassa eins og Paul.  Steini Hraundal á rythma, og Ægir Ómar á sólógítar.  Úlfar Hennings var trommari. Þeir fengu að spila á skólaböllum og í pásu hjá frægari hljómsveitum eins og Bendix úr Hafnarfirði á árshátíðinni . Ég veit ekki hvar þeir spiluðu utan Garðabæjar en mér var sagt að Halli hefði skráð þá í FÍH til að geta spilað eftir taxta.  Sennilega fyrsta bítlahljómsveit með félagsskírteini þar.  Ég á enga mynd af Táningum lengur, en ég minnist þessara tíma með ljúfsárum trega.  Við vorum svo ung og glöð.  Sjoppan var okkar félagsmiðstöð, þar sem Ráða kallaði á okkur í símann og Þórður sópaði okkur út.   Við áttum lífið framundan, en ekki Halli.  Við vissum það ekki þá og þegar fregnin um andlát hans barst til eyrna, söfnuðumst við saman í sjoppunni.  Þögul og beygð, líka Þórður og Ráða og við vissum að við höfðum misst svo mikið.  Hann var harmdauði öllum þeim sem honum kynntust.  Blessuð sé minning Haraldar G. Norðdahl.

Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband