Friðrik Hansson frá Hækingsdal

Langafi minn Friðrik Hansson frá Hækingsdal

Eins og ég sagði frá í síðast pistli um Þórunni Björnsdóttur langalangömmu mína, fluttist hún frá Hækingsdal í Kjós 1869 með yngstu drengina sína.  Friðrik Hansson langafi minn var þá þriggja ára og ólst upp með móður sinni og bróður í Kaldárseli við Hafnarfjörð.  Hann var á sautjánda ári þegar móðir hans lést og hefur því þurft að sjá um sig sjálfur eftir það.  Ekki veit ég mikið um þessi fyrstu ár hans eftir að hann fer frá Kaldárseli en hann gerðist brátt stýrimaður á skútum en eftir að hann flutti til Reykjavíkur varð hann kjalfattari að aðalstarfi.  Friðrik var rúmlega tvítugur þegar hann kynntist Elínu Árnadóttur frá Hlíð í Selvogi f. 1856 sem var tíu árum eldri en hann.  Þau giftust ekki, en áttu saman tvö börn sem tekin voru í fóstur.  Þau voru Hans Friðriksson f. 1888 - 1909 alin upp í Götu í Selvogi og Þórunn Friðriksdóttir f. 1889 - 1975 amma mín.  Hún var alin upp að Vogsósum í Selvogi sem eitt af börnum hjónanna þar.  Elín móðir þeirra hélt þó ávalt sambandi við börnin sín.   Friðrik kvæntist Jónínu Björg Jónsdóttur f. 1877 og áttu þau níu börn saman.  Þau eru:

Friðjón Friðriksson f. 1909 - 1930 háseti á flutningaskipi, hvarf í Oporto í Portugal

Dagmar Friðriksdóttir f. 1910 - 1979, húsfreyja í Reykjavík

Gyða Jóna Friðriksdóttir f. 1911 - 1979, húsfreyja í Reykjavík

Kjartan Friðriksson f. 1913 - 1996, verkamaður í Reykjavík

Ingunn María Friðriksdóttir f. 1915 - 1987, starfskona á Landakotsspítala

Sigurgeir Friðriksson f. 1916 - 1995, bifreiðasmiður í Reykjavík

Lilja Guðmunda Friðriksdóttir f. 1917 - 1918

Guðmundur Valdimar Friðriksson 1919- 1920

Vilhjálmur Friðriksson f. 1920 - 1996, Reykjavík

Friðrik og Jónína Björg skildu aldrei að lögum en ljóst er að hann bjó einn að Vesturgötu 51a á efri árum,  eftir því sem faðir minn sagði mér.  Hann hélt góðu sambandi við Þórunni dóttur sína og börn hennar í Þorkelsgerði í Selvogi.  Faðir minn sagðir mér að þegar hann sigldi í fyrsta sinn til Danmerkur með Dronning Alexandrina fylgdi Friðrik afi hans honum um borð.  Þórunn amma í Selvogi hélt einnig sambandi við hálfsystkini sín sem heimsóttu hana iðulega.  Ég man sjálf vel eftir Gyðu og Vilhjálmi ömmusystkinum mínum og þótti merkilegt þegar pabbi kynnti Vilhjálm fyrir mér sem móðurbróður sinn, en Vilhjálmur var fimm árum yngri en pabbi.

Friðrik Hansson lést í Reykjavík 23. apríl 1948


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband